Spurt og svarað
Yfirlit
1. Hvernig veit strákur að hann er kominn í mútur?
Ef röddin brestur, þ.e. verður allt í einu skræk eða rám, en hrekkur svo aftur í eðlilega tónhæð er það mjög líklega merki um að strákurinn sé byrjaður í mútum. Þegar strákar fara í mútur er röddin að breytast úr bjartri drengjarödd í dýpri karlmannsrödd. Barkakýlið stækkar og þar með raddböndin. Þessi breyting getur tekið um 1–2 ár. Sumir strákar finna ekkert fyrir breytingunni, heldur verður röddin smátt og smátt dýpri og karlmannlegri.
2. Er líkaminn hættur að vaxa og þroskast þegar við erum orðin kynþroska?
Nei, yfirleitt ekki. Mestur hluti vaxtar og þroska er oftast genginn yfir, en krakkar geta verið að vaxa og taka út þroska fram til 20 ára aldurs og jafnvel lengur þó þeir séu löngu orðnir kynþroska. Í þessu eins og mörgu öðru er þó mikill einstaklingsmunur.  
3. Af hverju verða hreyfingar hjá unglingum, sérstaklega strákum oft klunnalegar á kynþroskaaldrinum?
Líkaminn vex oft ójafnt, t.d. geta hendur og fætur lengst mikið um tíma og þá getur oft verið erfitt að átta sig á hvað þær ná langt og þær virðast jafnvel rekast í allt sem fyrir er og velta ýmsu um koll. Þetta gengur yfir, hlutföllin jafnast og þú venst líka lengd útlimanna.  
4. Af hverju eru unglingar svo oft þreyttir á þessum árum?
Miklar breytingar eiga sér stað í líkamanum á kynþroskaaldrinum. Þær eru í raun mikið álag á líkamann og krefjast mikillar orku. Þess vegna þarf líkaminn meiri hvíld.  
5. Af hverju eykst matarlyst oft mjög mikið á kynþroskaaldrinum?
Líkaminn tekur út mikinn vöxt á stuttum tíma og miklar breytingar verða á honum á þessu tímabili. Til þess þarf orku og næringarefni sem koma úr fæðunni. Það er nauðsynlegt fyrir unglinga að borða vel af hollri og fjölbreyttri fæðu.  
6. Hvernig eru fyrstu blæðingar?
Fyrstu blæðingar geta byrjað sem blóðlituð útferð eða brúnn blettur í nærbuxunum. Stundum gerist ekkert meira í það skiptið en þá skalt þú vera viðbúin að meira gerist næst, eftir u.þ.b. fjórar vikur. Venjulega standa blæðingar yfir í 2–6 daga. Byrja með ljósrauðri eða brúnleitri útferð. Á öðrum degi aukast svo blæðingarnar og eru mestar á 2.–4. degi og minnka þá á ný. Þær enda yfirleitt eins og þær byrja með ljósri eða brúnleitri útferð.  
7. Má fara í sund þegar blæðingar eru?
Það er í lagi. Blæðingar stöðvast gjarnan þegar verið er í vatni sérstaklega ef þær eru ekki miklar. Fyrstu dagana geta þær hins vegar verið mjög miklar. Hægt er að nota tappa meðan verið er í sundi. Ef þér finnst óþægilegt að fara í sund meðan á blæðingum stendur þá er engin ástæða til þess að gera það.  
8. Af hverju fær maður verki þegar blæðingar eru? Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir verkina eða losna við þá?
Verkirnir eru vegna samdrátta í leginu. Sumar stelpur fá mikla verki meðan aðrar fá litla sem enga verki. Sumum líður betur ef þær hreyfa sig en öðrum finnst betra að hafa hægt um sig. Það er í lagi að taka væg verkjalyf.  
9. Er í lagi fyrir ungar stelpur að nota tappa meðan á blæðingum stendur eða er betra að nota bindi?
Til er fjöldi tegunda af bindum og töppum og það er misjafnt hvað hentar hverri. Hjá ungum stelpum sem eru nýbyrjaðar að hafa blæðingar eru leggöngin þröng og því getur verið erfitt að koma tíðatöppum fyrir. Einnig getur meyjarhaft rofnað alveg eða að hluta þegar tappa er komið fyrir í fyrsta skipti. Þessu getur fylgt sársauki. Tappar eru þó til í ýmsum stærðum. Ef þú ákveður að nota tappa þarft þú að muna að skipta um þá reglulega eða á nokkurra klukkustunda fresti.   
10. Hvað er fullnæging?
Fullnæging er sterk vellíðunartilfinning sem hríslast um líkamann þegar kynferðislega næmir staðir hans eru örvaðir. Sjá umfjöllun um fullnægingu.  
11. Hvað gerist í líkamanum við fullnægingu?
Við kynferðislega örvun eykst blóðflæði til kynfæra og vöðvaspenna magnast. Blóðþrýstingur og púls hækka. Á ákveðnum tímapunkti við kynferðislega örvun eða samfarir losnar um vöðvaspennuna og kynferðisleg fullnæging á sér stað. Sjá umfjöllun um fullnægingu.  
12. Hvað eru samfarir?
Við samfarir setur strákurinn typpið inn í leggöng stelpunnar. Taktbundnar hreyfingar veita bæði stráknum og stelpunni unað. Stelpur fá fullnægingu vegna örvunar í leggöngum eða með því að snípurinn er örvaður og jafnvel hvort tveggja. Sæðið þrýstist fram í typpið og að lokum verður sáðlát og strákurinn fær þar með fullnægingu. Ekki er víst að stelpan og srákurinn fái fullnægingu á sama tíma.   
13. Hvað er kynlíf?
Orðið kynlíf hefur mismunandi merkingu í hugum okkar. Sumir setja jafnaðarmerki milli kynlífs og samfara meðan aðrir segja að í hugtakinu felist miklu meira eða allt líf manneskjunnar sem kynveru. Flestir tengja samt hugtakið kynlíf við einhvers konar snertingu og örvun á kynferðislega næmum stöðum líkamans, við kossa, kelerí, gælur, fróun eða samfarir. Kynlíf er hægt að stunda með sjálfum sér. Það er kallað sjálfsfróun og hana stunda langflestir. Mikilvægt er að stunda kynlíf með öðrum aðeins ef maður þekkir og treystir hinum og vill það sjálfur.   
14. Fyrstu samfarirnar - eru þær eitthvað til að óttast?
Fyrstu samfarirnar ættu að eiga sér stað þegar einstaklingarnir hafa kynnst, byggt upp traust og gagnkvæma virðingu. Þrátt fyrir þetta finna margir fyrir kvíða þegar þeir hafa samfarir í fyrsta sinn. Margir eru hræddir um að gera eitthvað vitlaust, stelpur geta verið hræddar við sársauka og strákar við að fá sáðlát of fljótt. Leggöng stelpna eru yfirleitt þröng og meyjarhaftið órofið áður en þær hafa samfarir í fyrsta skipti. Því getur sársauki fylgt fyrsta skiptinu. Ekki er ólíklegt að fyrsta skiptið veiti ekki kynferðislega ánægju eða fullnægingu hjá stelpum. Það skiptir öllu máli að við séum tilbúin sjálf, það er ekki nóg að hinn aðilinn sé tilbúinn. Þú hefur samfarir þegar þú ert tilbúin(n) og þegar þig langar, með þeim sem þig langar að vera með. Það er nægur tími til stefnu. Það er líka svo margt hægt að gera sem veitir kynferðislega ánægju annað en samfarir. Það er hægt að kyssast og kela, strjúka og snerta. Hafðu ekki áhyggjur þó að fyrsta skiptið hafi ekki staðið undir væntingum. Það er ekki heimsendir. Það er með kynlíf eins og annað sem við tökumst á við í lífinu, við verðum ekki meistarar í fyrstu atrennu.
Hvenær er ég tilbúin(n).  
15. Getur stelpa orðið ófrísk ef hún hefur samfarir áður en hún er byrjuð að hafa blæðingar?
Já. Blæðingar verða yfirleitt um tveimur vikum eftir egglos. Stelpa er því í raun orðin kynþroska þegar fyrsta egglos hefur orðið en hún veit það ekki fyrr en blæðingar byrja. Því getur stelpa orðið ófrísk ef hún hefur samfarir áður en hún hefur haft blæðingar í fyrsta skipti.  
16. Hvað er utanlegsfóstur?
Stundum fer fóstur að vaxa utan við legið. Slíkt kallast utanlegsfóstur og þarf að fjarlægja það með aðgerð eða lyfjagjöf ef það losnar ekki af sjálfu sér.  
17. Hvað er fyrirburi?
Ef barn fæðist meira en þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag er það sagt vera fyrirburi.  
18. Hvernig verða tvíburar til?
Stundum losna tvö egg úr eggjastokk sem frjóvgast bæði við samfarir. Þá verða til tvíeggja tvíburar. En eineggja tvíburar verða til þegar eitt egg skiptir sér þannig að tvö fóstur myndast.  
19. Hvað er tæknifrjóvgun?
Stundum gengur fólki illa að geta barn eftir venjulegri leið. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því. En það er hægt að fá hjálp til að verða barnshafandi. Með tæknifrjóvgun er getnaður framkvæmdur með því að frjóvga egg frá konu með sæði karlsins í tilraunaglasi. Stundum er notuð tæknisæðing en þá er sæði komið fyrir í eða nærri kynfærum konu án samfara.  
20. Hvað er sjálfsfróun?
Það að örva sjálfan sig kynferðislega nefnist sjálfsfróun. Sjá umfjöllun á þessum vef.
21. Hvað er klám?
Flestir eru sammála því að klám sé einhvers konar afskræming á kynlífi. Í klámmyndum, klámblöðum og á Netinu er kynlíf gert að söluvöru sem á ekkert skylt við venjulegt kynlíf fólks. Klámi fylgir oft ofbeldi. Klám þar sem börn yngri en 18 ára koma við sögu kallast barnaklám og er ólöglegt.  
22. Hvað er erótík?
Erótískar myndir eða texti sýna eða fjalla um kynlíf og ástir. Erótík felur hvorki í sér ofbeldi, kynjamismunun, fordóma né niðurlægjandi hegðun.  
23. Hvað er kynferðislegt ofbeldi?
Heilbrigð kynferðisleg samskipti milli einstaklinga eiga að byggjast á gagnkvæmri virðingu og ábyrgð. Kynferðislegt ofbeldi á ekkert skylt við kynlíf og er eins og annað ofbeldi valdbeiting, bæði andleg og líkamleg. Kynferðislegt ofbeldi getur m.a. falist í óviðeigandi snertingu, áreiti, orðum eða nauðgun. Nauðgun er samfarir sem eiga sér stað án samþykkis annars aðilans. Nauðgun er lögbrot. Börn geta orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en það er refsiverður glæpur að beita börn slíku. Ef þú hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi þá skaltu muna að þú berð ekki ábyrgðina, það var ekki þér að kenna. Segðu einhverjum sem þú treystir frá því jafnvel þó að þú hafir lofað að gera það ekki. Það á ekki að þegja yfir slíku. Að segja frá hjálpar þér að vinna úr málunum. Sá sem hefur beitt aðra kynferðislegu ofbeldi á ekki að komast upp með að þagað sé yfir verknaðinum.   
24. Hvað er klæðskiptingur?
Klæðskiptingar eru gjarnan gagnkynhneigðir karlmenn sem líður vel í kvenmannsfötum og fá oft út úr því kynferðislega örvun. Sumum konum líður líka betur í karlmannsfötum. Þetta tengist frekar persónuleika en kynhneigð.   
25. Hvað er transfólk?
Til eru einstaklingar sem upplifa að þeir hafi fæðst af röngu kyni, og hefur það ekkert með kynhneigð, kynhegðun eða kynlíf að gera. Kallast það kynáttunarvandi. Sumir þeirra sem eiga í kynáttunarvanda fara í læknisaðgerð til að láta leiðrétta kyn sitt og kallast þá transfólk.  
26. Hvað er kynhneigð?
Kynhneigð segir til um það að hvoru kyni einstaklingur laðast. Flestir verða hrifnir af einstaklingi af gagnstæðu kyni og eru þá gagnkynhneigðir. Sumir eru samkynhneigðir og eru þá hrifnir af fólki af sama kyni. Samkynhneigðar stelpur eru kallaðar lesbíur og samkynhneigðir strákar hommar. Þeir sem laðast að báðum kynjum eru tvíkynhneigðir. Kynhneigð skýrist oft á kynþroskaaldri en einnig síðar á ævinni. Aðalatriðið er að hver og einn fái að vera hann sjálfur og njóti virðingar hvernig svo sem kynhneigð hans er.   
27. Hvað eru sifjaspell?
Sifjaspell eru samfarir eða annað kynferðislegt samneyti við of náinn ættingja, s.s. milli foreldris og barns eða milli systkina. Þetta er ólöglegt.  
28. Er til eitthvað sem heitir öruggu dagarnir til að verða ekki ófrísk?
Nei, í raun ekki. Sumir halda að dagarnir fyrir og eftir blæðingar og meðan á blæðingum stendur séu öruggir dagar og að þá sé óhætt að hafa samfarir án getnaðarvarna. Egglos verður 14 dögum fyrir blæðingar og þá og dagana þar á eftir eru mestar líkur á getnaði. Engir dagar eru öruggir dagar því aldrei er hægt að vita með vissu hvenær egglos verður og svo geta sáðfrumur lifað í allt að átta daga í leginu. Þú ættir alls ekki að treysta á slíkt. Mun betra er að nota raunverulegar getnaðarvarnir, nota þær rétt og þá verður kynlífið öruggara og ánægjulegra.  
29. Hvað eru rofnar samfarir?
Sumir halda að ef typpið er tekið út úr píkunni áður en sáðlát verður þá geti stelpan ekki orðið ólétt. En það er ekki rétt. Það koma alltaf einhverjar sáðfrumur áður en hið eiginlega sáðlát verður og þær sáðfrumur geta alveg eins valdið getnaði eins og allar hinar. Sáðfrumur sem komast í snertingu við slímhimnu legganganna geta alltaf náð að synda upp leggöngin og að egginu. Þú ættir alls ekki að treysta á rofnar samfarir. Mun betra er að nota raunverulegar getnaðarvarnir, nota þær rétt og þá verður kynlífið öruggara og ánægjulegra.  
30. Hvað eru munnmök?
Það kallast munnmök þegar rekkjunautar gæla við eða örva kynfæri hvor annars með tungu eða vörum oft þannig að fullnæging verður. Munnmök eru eðlilegur þáttur í ábyrgu kynlífi en það er mjög misjafnt hvort fólk kýs að stunda þau eða ekki.   
31. Er hægt að skola leggöng eftir samfarir til að verða ekki ófrísk?
Nei, það er ekki hægt að skola sáðfrumur úr leggöngum að loknum samförum. Að sprauta vatni inn í leggöng eftir samfarir getur jafnvel hjálpað sáðfrumunum að komast leiðar sinnar í átt að egginu. Þú ættir alls ekki að treysta á skolun. Mun betra er að nota raunverulegar getnaðarvarnir, nota þær rétt og þá verður kynlífið öruggara og ánægjulegra.   
32. Hver eru helstu einkenni algengustu kynsjúkdóma?
Þú getur fræðst um það á heimsíðu Landlæknis: Smelltu hér!