PrentaPRENTA

Surtsey

14. nóvember 1963 hófst eldgos á 500 m langri sprungu á 130 m sjávardýpi suður af Vestmannaeyjum. Fljótlega hlóðst þar upp eyja úr vikri og hraunkleprum sem hlaut nafnið Surtsey. Surtseyjargosið var mjög öflugt og er eitt lengsta gos sem menn hafa fylgst með hér á landi. Það stóð nær samfellt í hálft fjórða ár og lauk ekki fyrr en í maí 1967. Framan af var gosið öflugt gjóskugos en í apríl 1964, þegar eyjan hafði dafnað svo vel að hún stóðst ágang sjávarins, fór að renna hraun úr gígnum. Gosið breyttist þá í dæmigert hraungos, eða dyngjugos, og lögðust þunnfljótandi hrauntaumar víða yfir gjóskuna, sem smátt og smátt hefur síðan verið að breytast í móberg. Þannig eru bergtegundirnar í Surtsey tvær, móberg og basalthraun.

Surtsey varð stærst tæpir þrír ferkílómetrar í goslok en síðan hefur sjórinn brotið af henni jafnt og þétt, þannig að hún er nú aðeins helmingur af upprunalegri stærð og rís um 150 m yfir sjávarmál. Eyjan er því smátt og smátt að fá á sig svipaða mynd og aðrar eyjar í Vestmannaeyjaklasanum. Surtsey hefur frá upphafi verið einstætt rannsóknarefni, því þar var í orðsins fyllstu merkingu hægt að fylgjast með því þegar land verður til og síðan hvernig það eyðist og breytist um leið og líf nemur land, jafnt gróður, skordýr og fuglar.

Meðan á Surtseyjargosinu stóð mynduðust tvær aðrar eyjar sitt hvorum megin við Surtsey. Var önnur nefnd Syrtlingur en hin Jólnir. Þær urðu báðar úthafsöldunni að bráð strax og gosi lauk í þeim. Í þessum eldsumbrotum kom alls upp um einn rúmkílómetri af gosefnum sem hefði dugað í laglega dyngju, hefði gosið orðið á þurru landi.

Smelltu til að fá stærri mynd
Hæð: 150 m
Tegund: Askja
Síðasta gos: 1963