UPPSJÓR

Höfin þekja rúmlega tvo þriðju hluta af yfirborði jarðarinnar. Þegar horft er yfir hafflötinn er erfitt að gera sér grein fyrir öllu því lífi sem í sjónum býr og því afli sem felst í öldum og straumum. Gífurlega fjölbreytni er þar að finna.

Uppsjóinn nefnum við þann hluta sjávar sem er yfir landgrunni og í úthafinu en er nokkru fyrir ofan botninn og hefur lítil tengsl við hann. Í uppsjónum er að finna fjölbreytt líf allt frá smáæjum lífverum svifsins til stærstu spendýra jarðarinnar, hvalanna.