TEISTA

Ceppus grylle

Á vorin og sumrin er teistan svartasti svartfuglinn. Þá er fiðurhamurinn allur svartur nema stórir hvítir reitir á hvorum væng. Fætur og innra borð goggsins eru hárauð. Á veturna eru teisturnar aftur á móti mjög ljósar. Teistur eru smávaxnar, aðeins um 30 cm langar og um 400 g þungar. Þær eru meiri strandfuglar en hinir svartfuglarnir og sjást sjaldan langt úti á hafi. Þó að teistur teljist stundum til bjargfugla fara þær aldrei mjög hátt í björgin, verpa ekki á opnum syllum en kjósa sér gjarnan holur og skúta í urðum undir fuglabjörgunum eða jafnvel í steinhleðslum. Teistur fljúga ágætlega en ef þær verða fyrir styggð á sundi kjósa þær frekar að kafa en að fljúga í burtu.

Teistur gefa frá sér hást sérkennilegt tíst.

Þær teljast staðfuglar.


Spila myndband

Teista Teistan er norrænn fugl sem verpir í kringum allt norðurhvelið allt suður til Írlands. Hér verpa þær umhverfis allt land, þó síst við suðurströndina.

Teistur lifa á smáfiskum og ýmsum öðrum sjávardýrum. Þær kafa allt niður á 30 m dýpi eftir fæðu á botninum.

Fjöldi eggja: 2
Eggjaskurn: hvít, brúnleit eða ljósblágræn með svörtum, rauðbrúnum eða gráum yrjum
Stærð eggja: 5,9 cm að lengd og 4 cm í þvermál

Ólíkt hinum svartfuglunum verpir teistan yfirleitt tveimur eggjum með þriggja daga millibili. Makatryggð er eitt einkenni svartfugla og er teistan þar engin undantekning. Makar skilja þó alltaf að loknu varpi og hittast svo næsta vor. Hreiðurgerð er engin eða sáralítil. Foreldrarnir skipta með sér ásetu og mataraðdráttum. Ef annað foreldrið ferst, t.d. í netum, getur hitt ekki aflað ungunum nægrar fæðu og drepast þeir þá báðir.

Eins og aðrir svartfuglar hefur teistan frá fornu fari verið mikið nýtt. Egg voru tekin sem og ungarnir auk þess sem kjöt fullorðinna fugla var etið og dúnninn notaður.

Á mörgum stöðum taldist það ólánsmerki að drepa fullorðna teistu.

Önnur nöfn á teistum eru Péturskofa (tengt Pétri postula) og þeista.

Teistur byrja að verpa tveggja til fögurra ára og geta orðið allt að tvítugar.

Teistuungar eru kallaðir teistukofur, teistupysjur eða grádónar.

Það veit á storm ef teistur tísta mikið á flugi kringum skip.