FJÖRUGRÖS

Chondrus crispus

Fjörugrös eru rauðþörungar, 5 til 20 cm há. Upp af festuflögu, sem festir þau við klappir og stóra steina, vex flatur stilkur sem breiðist út í blævængslaga plöntu. Fjörugrösin eru kvíslgreind með sléttum greinum sem eru 0,5 til 1 cm á breidd og eru greinarendarnir oftast bogadregnir. Þau eru dökkrauð, oft næstum svört á lit, sérstaklega neðri hluti plöntunnar. Þar sem þau vaxa í mikilli birtu verða efri hlutar plöntunnar gulleitir eða grænleitir.

Útlit og stærð fjörugrasa er talsvert breytilegt eftir því hversu brimasöm fjaran er þar sem þau vaxa. Í brimasömum fjörum vaxa þau stundum mjög þétt, eru lágvaxin og mynda þekju sem líkist grófri mosaþekju. Stundum slær af þeim ljósbláum bjarma sem stafar af ljósbroti í greinunum. Talið er að fjörugrös geti orðið að minnsta kosti 6 ára gömul. Hugsanlegt er að festurnar séu enn eldri en nýjar plöntur geta vaxið aftur og aftur upp af sömu festunni.

Önnur tegund rauðþörunga, sjóarkræða, getur líkst fjörugrösunum en hana má greina frá fjörugrösum á því að greinar hennar eru rennulaga.


Margar tegundir þörunga vaxa á fjörugrösum. Síðla sumars er algengt að sjá stóra belgi brúnþörungsins, fjörupunga, vaxa á fjörugrösum. Eftir að þeir hverfa á haustin taka dumbrauðar himnur purpurahimnu við.

Fjörugrös lifa í Norður-Atlantshafi frá Norður-Noregi til Gíbraltarsunds. Þau eru í Grænlandi og á austurströnd Norður-Ameríku frá Labrador suður til New York. Þau lifa einnig í Norður-Kyrrahafi. Norðurmörk útbreiðslu fjörugrasa liggja um Ísland. Hér við land er þau einungis að finna við Suðvestur- og Vesturland en finnast hins vegar ekki í kalda sjónum norðan lands og austan.

Fjörugrös lifa bæði á skjólsælum og brimasömum stöðum. Þau vaxa upp í miðja fjöru en eru algengust neðst í fjörunni og skammt fyrir neðan lágflæðislínuna. Þau vaxa á klöppum eða stórum steinum á svæðinu frá miðri fjöru niður á um 10 m dýpi neðan fjörunnar.

Fjörugrös eru ein af fáum tegundum botnþörunga sem voru nýttar til matar hér á landi fyrr á öldum. Þau voru notuð til að þykkja grauta líkt og fjallagrös. Þeim var safnað á sumrin og þau þurrkuð. Þegar grautar voru gerðir með fjörugrösum voru þau sett í grisju og soðin með mjólkinni. Hleypiefni fjörugrasanna leystust upp í heitri mjólkinni og hún þykknaði. Síðan um miðja 20. öld hafa fjörugrös ásamt sjóarkræðu verið nýtt víða í Norður-Atlantshafi til vinnslu á hleypiefninu carrageenan, sem notað er í ýmiss konar matvæla- og lyfjaiðnaði.