STÓRÞARI

Laminaria hyperborea

Stórþari er stórvaxinn brúnþörungur sem getur orðið meira en fimm metra langur. Hann hefur stinnan, sívalan stilk sem mjókkar neðan frá og upp. Ef stilkurinn er beygður hrekkur hann í sundur. Stilkurinn, sem einnig er nefndur þöngull, getur orðið rúmlega tveggja metra langur og 5 cm í þvermál þar sem hann er gildastur neðst. Stór og kröftug festa, þöngulhaus, heldur þaranum föstum við botninn. Hún er gerð úr sívölum, greinóttum festusprotum sem vaxa út úr neðsta hluta stilksins. Greinilegir vaxtarbaugar eða árhringir sjást neðst í stilknum ef hann er skorinn þversum.

Elstu stórþaraplöntur geta verið meira en 20 ára gamlar. Á efri enda stilksins situr þykk leðurkennd blaðka sem oftast er klofin upp í margar misbreiðar ræmur. Blöðkufóturinn er hjartalaga eða nýrnalaga, þ.e. við stilkinn sveigir blaðjaðarinn niður á við.

Önnur þarategund, hrossaþari, líkist stórþara en hægt er að greina tegundirnar að á því að stilkur stórþara mjókkar upp og er sívalur en stilkur hrossaþara er jafnbreiður upp úr og er flatvaxinn. Jaðar blöðkunnar hjá stórþara sveigir niður með stilknum en blaðka hrossaþarans er fleyglaga neðst við stilkinn.


Venjulega er stilkur stórþarans þakinn ásætum. Mest er um að rauðþörungar vaxi á stilknum en þar sitja einnig ýmis dýr svo sem svampar, mosadýr og hrúðurkarlar.

Stórþari vex í Norður-Atlantshafi einungis við strendur Evrópu. Útbreiðsla hans nær frá Norður-Noregi suður til Portúgal. Stórþari finnst allt í kringum Ísland og er ríkjandi tegund á klapparbotni þar sem er brimasamt. Hann getur vaxið frá mörkum stórstraumsfjöru, niður á 30 metra dýpi, þar sem sjór er sæmilega tær.

Stórþari hefur verið notaður lengi ásamt öðrum þarategundum sem áburður og telja jafnvel sumir að kornrækt á Íslandi til forna hafi verið háð notkun þara til áburðar. Í Evrópu er aðalnotkun stórþara til framleiðslu á gúmmíefninu algín. Algín er notað í margs konar iðnaði, t.d. í matvæla- og lyfjaiðnaði og í vefnaði.

Grósekkir þara standa þétt saman í dökkbrúnum gróflekkjum á yfirborði blöðkunnar og geta verið allt að 20 þúsund á hverjum fersentímetra. Þegar grómyndunin stendur sem hæst má gera ráð fyrir að í sæmilega þéttum þaraskógi sé magn gróa á þaranum nægilegt til að þekja botninn 8 sinnum.