LANDSELUR

Landselur er minni en útselur. Hann er gildastur um miðjuna, hann hefur tvo stutta framhreifa og aftast eru tveir stærri hreifar. Á hverjum hreifa eru fimm fingur eða tær. Á milli afturhreifanna er dindill. Landselur er steingrár á lit með ljósum og dökkum flekkjum á baki en ljósgrár á kvið og neðan til á hliðum. Hann getur orðið um 2 m á lengd og vegið meira en 100 kg. Brimlarnir eru stærri en urturnar. Landselir geta orðið um 30 ára gamlir°.


Spila myndband
Samkvæmt gamalli þjóðtrú þótti það boða illt ef selur synti þvert á stefnu báts þegar farið var í róður.

Landselur Landselur heldur sig við ströndina allan ársins hring. Hann er allt í kringum land og heldur sig bæði við klettastrendur og sandstrendur. Við suma árósa eru landselir algengir. Landselir halda sig oft tugum eða hundruðum saman í látrum sem eru kæpingarstöðvarnar.

Landselurinn kafar þegar hann veiðir sér til matar og getur hann kafað a.m.k. niður á 100 m dýpi. Hann lifir á fiski. Mest étur hann af þorski, síli, karfa og ufsa en étur einnig aðra fiska eins og síld og steinbít.

Kæping fer fram í maí-júní og kæpir hver urta aðeins einum kóp sem er um 8 kg við kæpingu. Kóparnir eru gráir á lit og hafa misst fósturhárin fyrir kæpingu, öfugt við útselskópa sem hafa enn hvítu fósturhárin þegar þeir fæðast. Landselskóparnir verða syndir strax eftir eina viku. Kópurinn fylgir urtunni þétt eftir í fjórar vikur og gætir hún hans þá af umhyggju og gefur honum feita og næringarríka mjólk. Á þeim tíma tvöfaldar kópurinn þyngd sína.

Landselskópar voru áður fyrr veiddir í net og feldurinn af þeim nýttur í klæði og kjötið borðað. Enn eru landselskópar veiddir fyrir feldinn, sem notaður er í pelsa.

Karldýr sela heitir brimill, kvendýrið urta og afkvæmið kópur.

Hreifi:
Útlimur sela. Á framhreifum eru fimm fingur og skinnblöðkur á milli fingranna. Á afturhreifum eru sams konar skinnblöðkur milli fimm táa.
Kæping:
Fæðing kóps, sem er ungviði sela.
Látur:
Strandsvæði þar sem selir koma til að kæpa.
Snoð:
Fósturhár sem er enn á útsel við fæðingu en landselur missir fyrir fæðingu.