KALKSKORPUR

Corallinaceae

Kalkskorpur eru rauðþörungar sem mynda bleikar eða grábleikar kalkkenndar skorpur á klöppum, steinum eða skeljum. Stundum vaxa þær einnig á öðrum þörungum. Kalkskorpur eru oftast 3 til 20 cm í þvermál og hafa ýmist slétt eða vörtótt yfirborð. Þær eru þéttvaxnar við undirlagið og getur verið erfitt að safna þeim. Kalkskorpur vaxa út frá jaðrinum en vöxturinn er mjög hægur og hefur mælst hálfur til tveir millimetrar á ári.


Kalkskorpur er hópur skyldra tegunda. Hér við land finnast þær um eða neðan við miðja fjöru og allt niður á 60 m dýpi, neðan fjörunnar, þar sem sjór er tær. Skyldir kalkskorpunum eru kóralþörungar, sem mynda kalkkenndar hríslur sem vaxa lausar á botninum, á 5 til 20 m dýpi, víða inni á fjörðum við landið. Kóralþörungum er safnað til vinnslu á Arnarfirði og er afurðin notuð sem áburður á garða og tún, sem fóður fyrir búfénað og til að flýta fyrir að beinbrot grói og margt fleira. Kalkskorpur vaxa dýpst allra þörunga í sjónum. Við Bahamaeyjar, út af vesturströnd Ameríku, hafa kalkskorpur fundist niður á 268 m dýpi.