TINDASKATA

Raja radiata

Fullvaxin tindaskata er 40 til 70 cm á lengd. Hún er flatvaxin með stutta og snubbótta trjónu. Eyruggar eru ummyndaðir í vængi eða börð sem eru samvaxnir haus og bol. Aftur úr bolnum gengur hali sem er svipaður að lengd og bolurinn. Kviðuggar eru langir og liggja aftur úr kverkunum milli barðanna og halans. Hjá hængum eru kviðuggar ummyndaðir í getnaðarlim eða göndla. Aftast á hala eru tveir bakuggar.

Tindaskatan er mógrá með ljósum dílum að ofan og hvít að neðan. Augun eru ofan á henni og einnig innstreymisop fyrir sjóinn sem berst til tálknanna. Kjaftur og tálkn eru hins vegar neðan á tindaskötunni.

Roð tindaskötunnar er hrjúft að ofan og alsett smáum og stórum göddum sem hafa breiðan fót og aftursveigðan, hvassan brodd. Aftur eftir miðju baki og aftur á hala er röð af 12 til 19 stórum tindum.


Spila myndband

Tindaskata Tindaskata lifir í norðanverðu Atlantshafi bæði við strendur Ameríku og Evrópu. Hún er algeng á 20 til 200 metra dýpi en hefur veiðst allt niður á 1500 m dýpi. Á vorin og sumrin er hún aðallega á grunnmiðum en gengur út á djúpið á haustin og dvelur þar á veturna.

Tindaskata Tindaskata lifir aðallega á marflóm, loðnu og rækju. Meðan hún er ung étur hún nær eingöngu marflær en eftir því sem hún eldist eykst hlutfall rækju og fiska í fæðunni.

Eins og hjá öðrum brjóskfiskum frjóvga hængarnir eggin með því að sprauta sæði inn í hrygnuna. Hrygnan gýtur eggjunum í svörtum hylkjum sem kölluð eru pétursskip. Inni í pétursskipinu þroskast eggið og síðan lirfan í um eitt ár. Seiðið sem klekst úr pétursskipinu er um 10 cm.