LANGA

Molva molva

Langa er mjóvaxin, með sívölum bol en stirtlan er lítið eitt þunnvaxin. Haus er langur og nokkuð flatur. Hún er fremur kjaftstór og undirmynnt þ.e. neðri skolturinn er styttri en sá efri. Hún hefur vel þroskaðan skeggþráð á höku. Fremri bakuggi er stuttur en sá aftari er mjög langur og samfelldur frá miðju baki aftur að sporði. Sporðblaðka er fremur stór og bogadregin að aftan. Raufarugginn er langur en þó ekki eins langur og aftari bakuggi. Eyruggar eru miðlungsstórir en kviðuggar eru langir. Roðið er þykkt með smáu hreistri. Rákin er bein og liggur eftir endilangri hliðinni. Langa er grámórauð að ofan og ljós að neðan og með hvítar uggarendur.Langa getur orðið 2 m að lengd en algengast er að hún sé 1 til 1,5 m og 5 til 20 kg. Hvað ert þú stór?


Langa Hér við land lifir langa í sjónum allt í kringum landið en er algengust í hlýja sjónum við suður- og vesturströndina. Hún er botnfiskur og lifir aðallega á 80 til 200 m dýpi, en hefur veiðst allt niður á 1000 m dýpi.

Heimkynni löngu er Norðaustur-Atlantshaf og norðanvert Miðjarðarhaf. Norðurmörk útbreiðslunnar eru í Hvítahafi í Norður-Rússlandi. Hún lifir einnig við Færeyjar og Ísland. Lítilsháttar af löngu hefur orðið vart við Nýfundnaland.

Langa Fæða löngu er fjölbreytt. Hún lifir þó aðallega á fiskum eins og spærlingi og gulllaxi. Auk fiska étur hún krabbadýr, smokkfiska og skrápdýr.

Langa hrygnir utan við landgrunnsbrúnina suður af landinu á 150 til 300 metra dýpi. Hrygningin er snemma sumars, í maí og júní. Eggin eru mjög smá og geta verið allt að 60 milljón egg í stærstu hrygnunum. Algengast er þó að þau séu 15 til 20 milljón í hverri hrygnu.

Eftir hrygningu verða eggin sviflæg, þroskast hratt í svifinu og er lirfan 3 til 4 mm við klak. Frá hrygningarsvæðunum berst hún með straumum vestur og norður fyrir land og um haustið hefur hún breyst í seiði og leitar botns og er þá orðin 6 til 8 cm löng. Lítið er vitað um hvar hún heldur sig fyrstu árin eða þar til hún fer að koma í veiðarfæri sjómanna, 30 til 40 cm löng.