KEILA

Brosme brosme

Bolur keilunnar er sívalur. Hún hefur lítinn haus með stutt snjáldur og fremur lítinn kjaft. Neðan á hökunni er vel þroskaður skeggþráður. Hún er með einn langan bakugga sem nær nánast frá haus og aftur að sporði. Neðan á stirtlunni er einn raufaruggi sem nær frá sporði fram undir miðjan fisk. Eyruggar og sporður eru bogadregnir fyrir endann. Kviðuggar mjóir og lengri en eyruggarnir. Roðið er þykkt en hreistrið mjög smátt. Rákin er hátt uppi á bolnum framan til en beygir niður á miðja stirtlu. Keilan er tíðast grámórauð að ofan, gulleit á hliðum og ljós að neðan. Utan til á uggum og sporði er dökk rák með ljósri ytri rönd.


Keila Hér við land lifir keilan í sjónum allt í kringum landið en er algengust í hlýja sjónum við suðurströndina. Hún er botnfiskur og er algengust á 20 til 1000 m dýpi.

Heimkynni keilunnar er Norðaustur-Atlantshaf. Útbreiðslusvæðið nær frá norðanverðum Norðursjó að sunnan, norður með Noregsströndum allt til Hvítahafs í Rússlandi og Svalbarða. Hún er við Írland, vesturströnd Skotlands, við Færeyjar, Ísland og suður af Grænlandi. Í Norður-Ameríku lifir hún í sjónum á svæðinu frá Labrador í Kanada til Þorskhöfða í Norðaustur-Bandaríkjunum.

Keila Fæða keilunnar er fjölbreytt. Hún lifir þó mest á botnkrabbadýrum eins og trjónukrabba, humri og rækju, en hún étur líka smærri fiska eins og til dæmis spærling og smákarfa.

Keilan hrygnir djúpt í hlýja sjónum sunnan við landið. Hún hrygnir á vorin og losar eggin uppi í sjó þar sem þau eru frjóvguð af hængunum um leið og þeim er hrygnt. Eggin þroskast í svifinu sem berst með straumum í yfirborðslögum sjávar. Við klak eru lirfurnar um 4 mm og vaxa hratt á meðan þær eru í svifinu. Þær breytast smám saman og fara að líkjast foreldrum sínum í útliti og kallast nú seiði. Þegar seiðin leita botns síðla sumars eru þau orðin um 6 cm löng.

Keilan vex fremur hægt og verður ekki kynþroska fyrr en 8 til 10 ára gömul. Talið er að keilan geti náð allháum aldri.