HÁFUR

Squalus acanthias

Háfurinn er oftast 60 til 90 cm langur en getur orðið meira en 100 á lengd. Hann er straumlínulaga, með lítinn haus og frammjóa, lítið eitt flata trjónu. Hann er með lítinn kjaft en fremur stórar og beittar tennur. Hann hefur tvo bakugga, annan á miðju baki og hinn ofan á stirtlu og eru greinilegir gaddar á þeim framanverðum. Eyruggar eru þríhyrndir og fremur stórir.

Háfurinn er dökkgrár að ofan og á hliðum og ljósgrár á kvið. Á hliðum er greinileg rák og ljósir dílar.


Spila myndband

Háfur Háfur finnst í sjónum allt í kringum Ísland en er algengastur við suður- og vesturströndina Hann lifir frá 10 m dýpi niður á 900 m dýpi. Hann heldur sig á djúpinu yfir veturinn en gengur upp í grynnri sjó á sumrin.

Háfur lifir á tempruðum og kaldtempruðum svæðum í Atlantshafi og Kyrrahafi bæði á norður- og suðurhveli. Hann finnst hins vegar ekki í hitabeltinu.

Háfur Háfur er talinn gráðugur fiskur. Hann étur fyrst og fremst aðra fiska. Smár þorskur, ýsa, lýsa og sandsíli eru algeng fæða og einnig étur hann ýmsa hryggleysingja, svo sem krabbadýr og burstaorma

Háfurinn fæðir lifandi unga sem líkjast foreldrunum í útliti þegar þeir fæðast. Í hverju goti fæðast oftast 5 til 6 ungar. Þegar ungarnir fæðast eru þeir 22 til 33 cm. Mökun hjá háfnum fer fram á veturna og þroskast fóstrið í hrygnunni í 18 til 24 mánuði áður en hún gýtur. Hrygnan gýtur að vori eða sumri.