HNÝÐINGUR

Lagenorhynchus albirostris

Hnýðingurinn er allt að 3 m á lengd og 150 til 300 kg að þyngd þegar hann er fullvaxinn. Hann hefur hvelft enni og 5-8 cm breitt snjáldur. Hann er þykkastur um miðjuna og hefur hátt og aftursveigt horn á miðju baki. Bægslin eru fremur breið að ofan en mjókka til endana. Í hvorum skolti eru 50 til 60 tennur.

Hnýðingurinn er mjög breytilegur að lit. Snjáldrið er hvítt, en höfuð og framhluti baks aftur fyrir hornið er dökkgrár eða svartur en ljós, aflangur flekkur er ofan til á framanverðri síðunni. Aftasti hluti baksins er oftast grár. Kviðurinn er hvítur en á hliðum eru langrákir í ýmsum gráum tónum frá dökkgráu til hvíts.


Hnýðingur Heimkynni hnýðingsins eru í Norður-Atlantshafi. Austan megin lifir hann á svæðinu frá Svalbarða suður til Frakklands og að vestanverðu frá Hudsonflóa í Kanada til NewHnýðingurinn er sennilega algengasti hvalurinn hér við land. Hann er allt í kringum landið og heldur sig aðallega yfir utanverðu landgrunninu en sést einnig oft nálægt landi.

Fæða hnýðingsins samanstendur af fjölbreyttu úrvali fiska eins og loðnu, síli og síld en einnig stærri fiska eins og ýsu, þorsk, lýsu og ufsa.

Beinar veiðar á hnýðingum hafa ekki verið stundaðar hér við land. Nokkuð er hins vegar um að hnýðingar festist í fiskinetum og drukkni. Þeir eru þá gjarnan nýttir til matar.

Hnýðingar fara um í hópum og þó að í flestum hópunum séu innan við 10 dýr geta þau verið nokkrir tugir í hverjum hópi. Algengt er að hnýðingahópar fylgi skipum á siglingu og ríði bógöldunni í góðu veðri. Þeir stökkva gjarnan upp úr sjónum. Þeir eru oft innan um aðra hvali í æti. Þeir hafa einnig sést tína upp fiska sem hnúfubakar og langreyðar missa út úr sér í loðnuáti.