Fróðleikur

Þróun fugla

Það er skrýtið að hugsa um það, en einu sinni voru engir fuglar til. Elstu steingervingar af lifandi verum eru taldir rúmlega tveggja milljarða ára. Smám saman komu fleiri og margbrotnari lífverur til sögunnar.

Aðstæður á jörðinni breyttust. Margar lífverur hafa komið fram á sjónarsviðið og dáið út eða þróast í nýjar tegundir. Talið er að fyrstu fuglarnir hafi verið uppi fyrir ~150 milljónum ára. Steingerðar leifar þessara fornu fugla hafa fundist í jarðlögum í Þýskalandi.

Fuglar og önnur dýr

Skyldleiki fugla og skriðdýra leynir sér ekki. Vísindamenn telja að hreistrið á fótum fuglanna sé af sama toga og hreistruð húð núlifandi skriðdýra. Einnig er talið að fiðrið sé ummyndað hreistur. Fuglar og mörg skriðdýr verpa eggjum og höfuðbein þessara dýra eru svipuð. Talið er að um sé að ræða arf frá sameiginlegum forföður frá því fyrir um 160 milljónum ára.

Fuglar teljast til hryggdýra, ásamt skriðdýrum, fiskum, froskdýrum og spendýrum. Fuglar eru með heitt blóð. Skriðdýr eru ekki með heitt blóð – það eru hins vegar spendýrin.

Þróunartré
Tré sem sýnir innbyrðis skyldleika hryggdýra.
Beinagrindur segja talsvert til um skyldleika dýra.