• Stormsvala

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Stormsvala er afar lítill dökkur sjófugl. Sæsvölur (stormsvala og sjósvala) eru alls óskyldar svölum, þær eru pípunasar eins og fýll, skrofa og albatrosar. Varla er hægt að villast á þeim og öðrum sjófuglum en þær líkjast hvor annarri. Stormsvala er minnsti sjófugl Evrópu, lítið eitt minni en sjósvala. Hún er brúnsvört, á stærð við snjótittling, en vænglengri. Stélið er þverstýft, gumpur er snjóhvítur, vængir dökkir að ofan en ljós rák á undirvæng. Ennið er mjög bratt og er eins og fuglinn sé með kýli framan á höfðinu. Fullorðinn og ungfugl eru eins.

Á færi eru sæsvölurnar oftast best greindar sundur af fluglaginu. Sjósvala flögrar líkt og fiðrildi og breytir sífellt um hraða og stefnu. Flug stormsvölunnar er beinna og jafnara. Báðar eru einstaklega fimar og léttar á flugi. Stormsvala eltir oft skip úti á rúmsjó. Hrekur stundum inn í land í sunnanstórviðrum á haustin. Stormsvala er þögul utan varpanna, á varpstöðvum gefur hún frá sér malandi kurr í holu.


Fæða og fæðuhættir:
Í fæðuleit flýgur stormsvalan mjög lágt yfir haffleti með lafandi fætur, líkt og hún hlaupi á sjónum. Tínir upp átu (dýrasvif, smávaxin krabbadýr), lýsisagnir, smáan fisk og úrgang frá fiskiskipum.


Fræðiheiti: Hydrobates pelagicus

Kjörlendi og varpstöðvar

Stormsvala eyðir ævi sinni úti á rúmsjó og kemur aðeins að landi til að verpa. Varpið tekur langan tíma og unginn er lengi í hreiðri. Hún verpur í holur og sprungur í klettum og lagskiptum hraunum, svo og undir steinum í urðum. Stormsvala er félagslynd og verpur oft í stórum og þéttum byggðum. Er einungis á ferli að næturlagi á varpstöðvum.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Stormsvalan er farfugl. Stærsta varpið er í Elliðaey í Vestmannaeyjum, en hún hefur auk þess fundist í tveimur öðrum eyjum þar. Verpur auk þess í Ingólfshöfða, Skrúð og Papey. Stormsvalan er evrópsk, hún verpur í Færeyjum og Bretlandseyjum og með ströndum Vestur-Evrópu suður til Miðjarðarhafs. Á haustin flýgur hún til Suður-Atlantshafs og er aðallega útaf ströndum Afríku.

Varpstöðvar/sumarútbreiðsla
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

UNGAR