• Lómur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Vetur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Biðilsdans

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Lómurinn er straumlínulagaður og svipaður frænda sínum, himbrimanum, en þó mun minni. Hann er gráleitur, dökkur að ofan en ljós að neðan, með langa, mjóa vængi. Á sumrin er hann grár á höfði og hálshliðum, langröndóttur á afturhálsi og með dumbrauða skellu á framhálsi. Grábrúnn að ofan, bringa, kviður og undirvængir hvít og síðurnar rákóttar. Á veturna er hann hvítur á höfði og hálsi nema með gráan koll og afturháls, grár á baki með hvítum, smágerðum dílum og hvítur að neðan. Ungfugl er svipaður en brúnni og dekkri á baki, höfði og hálsi.

Lómi svipar að flestu leyti til himbrima og er ófær til gangs eins og hann, ávallt auðgreindur frá honum á uppsveigðum, grönnum gogginum. Á flugi ber hann herðarnar eins og himbrimi og fæturnir skaga aftur fyrir stélið. Lómar sjást stakir eða í litlum hópum.


Fæða og fæðuhættir:
Fiskiæta, á ferskvatni kafar hann eftir hornsíli og smásilungi. Þar sem lómar verpa við smátjarnir sækja þeir sandsíli til sjávar, silung í vötn eða jafnvel flundru í árósa. Á veturna er aðalfæðan smáfiskur eins og sandsíli, smáufsi og loðna. Eitthvað eta þeir krabbadýr og lindýr.


Fræðiheiti: Gavia stellata

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur við tjarnir, vötn, ár og læki, oftast við eða nærri fiskauðugum stöðum. Myndar sums staðar dreifðar byggðir nærri sjó. Verpur á vatnsbakka eins og himbrimi. Er á sjó á veturna.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Lómurinn er að nokkru farfugl. Hann verpur um land allt en er algengastur við sjávarsíðuna, þar sem hann verpur sums staðar í dreifðum byggðum, en annars eru pörin venjulega stök. Hluti stofnsins flýgur til Vestur-Evrópu á haustin en staðfuglar dvelja að mestu við vestanvert landið á veturna. Grænlenskir varpfuglar hafa hér viðdvöl á leið til vetrarstöðva á Norðursjó og mögulega gætu einhverjir haft hér vetrardvöl. Varplönd eru allt umhverfis norðurheimskautið.

Sennilega er meira af lómi til hér við land á veturna heldur en áður var talið, en merkingar með svonefndum dægurritum benda til að lómar sem verpa á Mýrum vestur, haldi til við vestanvert landið á veturna. Það er í samræmi við niðurstöður vetrafuglatalninga (jólatalninga) í svartasta skammdeginu; að jafnaði sjást 100-300 fuglar í þessum talningum, flestir við Suðvesturland, en einnig talsvert við Vesturland og Vestfirði. Litlir hópar sjást jafnframt stundum við Suðausturland, í Berufirði og Hornafirði. Ef til vill er það um tíundi hluti vetrarstofnsins, sem sést á talningunum.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR