• Skúmur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Með unga

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Nýfleygur ungi

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Skúmur er einkennisfugl hinna miklu sanda Sunnan- og Suðaustanlands. Honum svipar til kjóa en er þó mun stærri og þreknari, minnir á stóran, dökkan, hálsstuttan máf. Skúmurinn er dökkbrúnn með ljósbryddum fjöðrum á höfði, hálsi, bringu og baki. Ljósir blettir framarlega á væng eru einkennandi á þöndum vængjum. Vængirnir eru breiðir og snubbóttir, stélið stutt og breitt, miðfjaðrir lítið eitt lengri. Ungfuglar eru dökkbrúnir og jafnlitir. Kynin eru eins, en kvenfuglinn er heldur stærri.

Skúmurinn er mjög kröftugur flugfugl og ótrúlega fimur þrátt fyrir þyngslalegan vöxt. Hann er þekktur fyrir að leggja aðra sjófugla í einelti og ræna þá æti sínu. Hann er afar árásargjarn við hreiður sitt. Félagslyndur á varpstöðvum en fer oft einförum utan þeirra.


Fæða og fæðuhættir:
Sandsíli er líklega aðalfæða skúms, en hann lifir annars á fjölbreyttri fæðu úr dýraríkinu. Hann leggur aðra sjófugla í einelti, svartfugla, máfa og jafnvel súlur, og þvingar þá til að sleppa eða æla æti sínu. Drepur einnig aðra fugla sér til matar, bæði fullorðna og unga, og fer einnig í fiskúrgang.


Fræðiheiti: Catharacta skua

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur aðallega í dreifðum byggðum á sjávarmelum og grónum aurum jökuláa, en stundum í höfðum og eyjum. Hreiðrið er dæld í jörðina, oft án hreiðurefna.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Um ¾ hlutar íslenska stofnsins verpur á Skeiðarársandi, í Öræfum og á Breiðamerkursandi. Stöku pör verpa utan hefðbundinnar útbreiðslu. Skúmurinn er úthafsfugl utan varptíma og heldur sig á veturna á Norður-Atlantshafi. Utan Íslands verpur hann aðallega á skosku eyjunum, en einnig í Færeyjum. Þrjár náskyldar tegundir verpa á suðurhveli jarðar.

Varpstöðvar/sumarútbreiðsla
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR