• Spói

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Farfuglar að vori

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Spói er stór vaðfugl, háfættur og rennilegur. Hann er grábrúnn með ljósum fjaðrajöðrum að ofan, á bringu og niður á kvið en annars ljós á kviði og neðan á vængjum, með dökkbrúnan koll og augnrák en ljósa brúnrák og kverk. Hvítur gumpur og neðri hluti baks eru áberandi á flugi. Ungfugl er svipaður en goggur styttri og beinni. Kynin eru eins, en kvenfuglinn ívið stærri.


 Á flugi þekkjast spóar á hröðum vængjatökum. Þeir fljúga oft um í hópum síðla sumars, áður en þeir yfirgefa landið. Spóinn er annars fremur ófélagslyndur. Hann tyllir sér oft á háan stað, t.d. fuglaþúfu, og vellir. Söngur spóans, vellið, er eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins.


Fæða og fæðuhættir:
Skordýr, köngulær, sniglar, ormar, krabbadýr og ber síðsumars. Langur goggurinn nýtist vel til að grípa fæðu jafnt á yfirborði sem í mjúkum leir.


Fræðiheiti: Numenius phaeopus

Kjörlendi og varpstöðvar

Varpkjörlendi er bæði í þurru og blautu landi, þéttleikinn er mestur í hálfdeigjum og þar sem mætast votlendi og þurrlendi, en hann verpur líka í lyngmóum, grónum hraunum, blautum mýrum og hálfgrónum melum og söndum. Hreiðrið er sinuklædd grunn laut í lágum gróðri, venjulega óhulið. Er utan varptíma oft í túnum en sést sjaldan í fjörum.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Spóinn er farfugl. Hann er algengur á láglendi um land allt en strjáll á hálendinu. Vetrarstöðvarnar eru í Vestur-Afríku sunnan Sahara og lítils háttar á Spáni og Portúgal. Nýlegar rannsóknir sýna að spóarnir geta flogið í einum rykk til Vestur-Afríku. Um 40% af spóum heimsins verpa á Íslandi, við berum því mikla ábyrgð á spóastofninum. Verpur annars víða umhverfis Norður-Íshafið.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR