Eitt af markmiðum menntunar er að undirbúa nemendur fyrir framtíðina. Í námskrá og skólastarfi er sjónum beint að fortíðinni í talsverðum mæli, sem getur verið á kostnað þess að veita nemendum tækifæri til þess að íhuga hvert þeir stefna og hvað þeir hyggjast gera við þá þekkingu sem þeir öðlast með námi sínu og skólagöngu.

Ef rætt er við barn á grunnskólaaldri um hvernig framtíðin verður munu svörin væntanlega innihalda orð eins og geimferðir, vélmenni, gereyðingarvopn og stjörnustríð. Hugmyndir barna um framtíðina koma að stórum hluta frá sjónvarpi, kvikmyndum og tölvuleikjum.

Ungt fólk fær sjaldan tækifæri til þess að ígrunda alvarlega hvernig heimi það myndi vilja búa í. Þegar það hins vegar fær slíkt tækifæri kemur það oft kennurum sínum á óvart með hugmyndum sínum og áhyggjum um framtíðina.

Fræðsla um framtíðina getur sýnt nemendum hvernig þær aðgerðir sem gripið er til í fortíðinni geta haft áhrif á nútíðina og hvernig aðgerðir sem gripið er til í dag geta haft áhrif á framtíðina. Menntun getur hjálpað nemendum til þess að skilja að framtíðin er ekki föst stærð heldur er hún háð breytingum. Möguleikar um þróun framtíðarinnar eru fjölmargir og það er í raun aðeins hegðun okkar í nútíðinni sem ræður því hvað framtíðin ber í skauti sér.

Mikilvægt er að nemendur skilji hversu miklu það skiptir að hver einstaklingur í samfélaginu taki vel ígrundaðar ákvarðanir. Eftir fræðslu um framtíðina ættu nemendur að hafa trú á sinni eigin getu til þess að breyta framtíðinni til hins betra og finna viljann í sjálfum sér til þess að standa fyrir þeim breytingum.

;
Kafli 7
Framtíðin; breytingar og tækifæri
PrentaPRENTA