STEINBÍTUR

Anarhichas lupus

Steinbítur er langur og hausstór fiskur með stórar og sterkar tennur. Algengt er að hann sé 60 til 110 cm langur og 2,5 til 15 kg. Hann hefur kúpt enni og þykkar varir. Fjórar stórar, bognar vígtennur eru fremst í hvorum skolti og fyrir aftan þær breiðir og snubbóttir jaxlar í röð inn eftir báðum gómum. Einn samfelldur, hár bakuggi nær alla leið frá haus aftur að sporði. Raufarugginn er einn og nær frá sporði fram undir miðjan fisk. Eyruggarnir eru breiðir og bogadregnir fyrir endann. Engir kviðuggar eru á steinbít.

Liturinn er blágrár með 10 til 12 dekkri þverrákum á hvorri hlið. Kviðurinn er ljósgrár. Roðið á steinbítnum er þykkt og slímugt en hreistrið mjög smátt.


Spila myndband
Steinbítsroð var talsvert notað í roðskó hér áður fyrr. Tilraunir með sútun á steinbíts- og hlýraroði lofa góðu en slíkt sjávarleður er eftirsótt í ýmsa smávöru og í fatagerð.

Steinbítur Við Ísland er steinbítur algengur allt í kringum land. Mest veiðist þó af honum við Vestfirði. Hann er botnfiskur og er algengastur á 50 til 150 m dýpi. Steinbítur hefur engan sundmaga og á því erfitt með að lyfta sér frá botni nema í stuttan tíma. Á veturna heldur hann sig fremur djúpt en á vorin gengur hann upp á grynningar og getur þá veiðst allt upp á 10 m dýpi.

Steinbíturinn lifir í Norður-Atlantshafi.

loading