• Rauðhöfðaönd

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Rauðhöfðaönd - steggur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Rauðhöfðaönd - kolla

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Rauðhöfðaönd - steggir

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Rauðhöfðaönd er meðalstór önd, nokkru minni en stokkönd, með hnöttótt höfuð, stuttan háls, lítinn gogg, fleyglaga stél og langa, mjóa vængi. Steggurinn er með rauðbrúnt höfuð og rjómagula blesu frá goggrótum aftur á kollinn og grængljáandi rák aftan augna. Hann er rauðbleikur á bringu, gráyrjóttur að ofan og á síðum, stél svart með gráum jöðrum, áberandi hvítur blettur milli stéls og síðu.Axlafjaðrir eru svartar með hvítum bryddingum. Fullorðinn steggur er með hvítan áberandi blett á framvæng sem myndar hvítt band meðfram síðum á aðfelldum væng. Ársgamall steggur er án þessa einkennis. Í felubúningi er hann dekkri en kolla, oft rauðbrúnni og vængbletturinn sjáanlegur. Kollan er grá eða dökkrauðbrún, flikrótt að ofan með jafnlitari síður og bringu. Framhluti vængs er grár. Bæði kyn hafa hvítan kvið og dökkgræna vængspegla.

Rauðhöfðaönd flýgur hratt með örum vængjatökum. Hún virðist fremur framþung og er oft með inndreginn háls á sundi. Sést oft á beit á landi. Hún er félagslynd utan varpstöðva og mynda steggir í felli oft stóra hópa.


Fæða og fæðuhættir:
Rauðhöfðinn er mestur grasbítur meðal anda, bítur jafnt í vatni sem á landi, þráðnykra, mýrelfting og gras eru mikilvægar fæðutegundir. Notfærir sér gróður sem álftir og kafendur róta upp á yfirborðið og því eru rauðhöfðar tíðir í þeirra hópum. Etur grænþörunga og marhálm í fjörum.


Fræðiheiti: Anas penelope

Kjörlendi og varpstöðvar

Á sumrin og á fartíma er kjörlendið grunn lífrík vötn og tjarnir, óshólmar og stararflóð. Fuglinn verpur í mýrum og móum; hreiður er vel falið milli þúfna, í lyngi eða runnum, fóðrað með dúni. Staðfuglar dvelja á lygnum víkum og vogum og lítils háttar á auðum vötnum, tjörnum og ám inn til landsins.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Rauðhöfði er að mestu farfugl. Hann verpur á láglendi um land allt en er algengastur á Norður og Norðausturlandi. Stærstur hluti stofnsins hefur vetursetu á Bretlandseyjum, aðallega Skotlandi. Íslenskir rauðhöfðar flakka þó víða, nokkrir hafa fundist í Norður-Ameríku, austur í Síberíu og suður að Miðjarðarhafi. Milli 2000 og 4000 fuglar hafa hér vetursetu og sjást þeir um land allt, þó mest á Suður- og Suðvesturlandi. Varpheimkynnin eru um norðanverða Evrópu og Asíu austur að Kyrrahafi.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR