• Grágæs

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Oddaflug

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Grágæs er stærst þeirra gæsa sem verpa eða hafa viðdvöl á Íslandi. Hún er öll grábrún, dökk að ofan og á hálsi, ljós að neðan nema síðurnar eru dökkar, stundum með dökka flekki á bringu og kviði. Er eins og aðrar gráar gæsir með hvítan undirgumpur , undirstél-- og yfirstélþökur. Ljósgráir framvængir og gumpur áberandi á flugi. Fullorðinn fugl og ungfugl eru svipaðir, ungfugl er með dökka nögl á goggi, en fullorðin með ljósa. Kynin eru eins að lit, en gassinn er sjónarmun stærri.

Grágæsir halda sig oftast í hópum utan varptíma, fara þá um í oddaflugi og skiptast á um að hafa forystu. Flugið er beint og kraftmikið. Þær eru mest á ferli í dögun og rökkurbyrjun. Pörin halda saman árið um kring og annast uppeldi unga í sameiningu, kvenfuglinn ungar út meðan karlfuglinn stendur á verði.


Fæða og fæðuhættir:
Grasbítur, fæðan er ýmis grænn gróður; starir og grös yfir sumarið og síðsumars og á haustin taka þær m.a. ber. Etur forðarætur kornsúru, á vorin rífur hún upp gras til að ná í græna plöntuhluta og sækir í korn frá fyrra hausti.


Fræðiheiti: Anser anser

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur aðallega neðan 300 m hæðarlínu, í mýrum, hólmum og grónum eyjum, á ár- og vatnsbökkum eða í kjarri og lyngmóum, oft í dreifðum byggðum, alltaf í nánd við vatn þar sem gæsirnar geta leitað athvarfs með ófleyga unga og þegar þær eru í sárum. Hreiðrið er dæld í gróður. Eru utan varptíma gjarnan í ræktuðu landi, t.d. túnum, ökrum og kartöflugörðum, en einnig í votlendi.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Grágæs er að mestu farfugl. Grágæs og heiðagæs skipta með sér landinu, heiðagæsin á hálendi og grágæs á láglendi, þótt heiðagæsin hafi á síðari árum seilst nokkuð inn á yfirráðasvæði grágæsarinnar. Grágæs hefur vetursetu á Bretlandseyjum, aðallega í Skotlandi, en minna á Norður-Írlandi og Norður-Englandi. Íslenskir fuglar hafa fundist á meginlandinu, bæði í Noregi og Hollandi. Á síðustu árum hefur veturseta aukist mjög hérlendis, einkum á Suðurlandi og tengist væntanlega aukinni kornrækt og hlýnandi veðráttu, staðfuglarnir geta skipt þúsundum. Fram til þessa voru nokkur hundruð fuglar viðloðandi Reykjavíkurtjörn á veturna, þeir fuglar sáust víða á Innnesjum og Suðurnesjum. Farfuglarnir koma snemma, fyrstu gæsirnar fara að sjást um miðjan mars og þær fara líka seint, í október-nóvember. Varpheimkynnin eru víða í Norður- og Mið-Evrópu og austur um Asíu.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR