• Óðinshani

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Karlfugl/kvenfugl

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Óðinshani að vetri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Þrjár kerlur elta stakan karl

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Óðinshaninn er smávaxinn og fínlegur fugl. Hann er gráleitur að ofan, fremur dökkur á sumrin en ljósari á vetrum og ljós að neðan. Í sumarbúningi hefur hann breiðan, rauðgulan kraga um hálsinn og hvítan blett í kverkinni. Hann er hvítur að neðan og með ljós vængbelti. Kvenfugl er skærlitari en karlfugl. Síðsumars og á veturna er fuglinn ljósblágrár að ofan en hvítur að neðan, með dökka augnrák. Ungfugl er svipaður en dekkri á kolli, hnakka og afturhálsi; á baki svipaður og fullorðinn fugl í sumarbúningi.

Óðinshaninn flýgur hratt og flöktir mikið. Oftast sést hann á sundi. Hann liggur hátt í vatninu, skoppar á vatnsborðinu og hringsnýst um sjálfan sig, dýfir goggnum ótt og títt í vatnið og tínir upp skordýr. Í tilhugalífinu á kvenfuglinn frumkvæðið og það er karlfuglinn sem sér um álegu og ungauppeldi en kvenfuglinn lætur sig hverfa strax eftir varpið og getur stundum verið í tygjum við fleiri en einn karlfugl (fjölveri). Óðinshani er spakur fugl og félagslyndur utan varptíma.


Fæða og fæðuhættir:
Hringsnýst á sundi og hvirflar upp fæðu, dýfir gogginum ótt og títt í vatnið og tínir upp smádýr eins og rykmý, brunnklukkur, smákrabbadýr, tínir einnig rykmý af tjarnarbökkum og landi. Úti á sjó étur hann svif.


Fræðiheiti: Phalaropus lobatus

Kjörlendi og varpstöðvar

Algengur um allt land, einkum á láglendi, en einnig víða á hálendinu. Uppáhaldsbúsvæði hans eru í lífríku votlendi. Hreiðrið er dæld í þúfu, mosa eða sinu, ávallt vel falið. Utan varptíma heldur hann sig einkum við ströndina á sjávarlónum og tjörnum.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Óðinshani er farfugl, sem hefur hér skamma viðdvöl. Sú spurning hafði lengi brunnið á öllum þeim sem fylgjast með fuglum: hvert fara íslensku óðinshanarnir á veturna? Það vissi enginn, en þó var vitað að þeir væru einhvers staðar langt úti á sjó. Sumarið 2015 náðist óðinshani í Aðaldal, sem hafði verið með dægurrita á fætinum í heilt ár. Fuglinn er aðeins 40 grömm og ber því ekki mikla byrði. Dægurritinn er tæplega eitt gramm. Hann hafði lagt að baki stórkostlegt ferðalag. Fyrst hafði hann farið suður með austurströnd Norður-Ameríku, síðan yfir Karíbahafið og Mið-Ameríku, alla leiðina til Kyrrahafsins út af Perú, suðaustur af Galapagos-eyjum. Þar er mikið æti í sjónum og góð skilyrði fyrir fjölda sjófugla. Þar með var eitt af stóru leyndarmálunum í íslenskri fuglafræði leyst.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR