• Langvía

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • „Hringvía“

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Langvía að vetri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Langvía á hreiðri

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Langvía er algengur og fremur stór svartfugl sem líkist mjög stuttnefju. Á sumrin er langvían brúnsvört að ofan en hvít að neðan. Dökkar kámur og flikrur á síðum eru einkennandi. Hvítir jaðrar armflugfjaðra mynda ljósa rák á aðfelldum væng. Á litarafbrigðinu „hringvíu“ er hvítur hringur kringum augu og hvítur taumur aftur og niður úr honum. Á veturna teygist hvítur litur bringunnar upp eftir kverk, hálshliðum og vöngum, en svört rák gengur aftur frá augum. Kynin eru eins.

Langvíu svipar í mörgu til álku og stuttnefju. Höfuðlag er þó annað, langvía er auk þess hálslengri og stélstyttri en álka. Hún flýgur með kýttan háls. Á erfitt um gang, situr á ristinni. Auðgreindust frá stuttnefju á kámugum síðum og því að engin hvít rák er á gogghliðum. Er afar félagslynd.


Fæða og fæðuhættir:
Kafar af yfirborði eins og aðrir svartfuglar, aðalfæðan er síli og loðna, en það fer nokkuð eftir landshlutum hvaða fæða er í boði. Etur einnig síld og smákrabbadýr.


Fræðiheiti: Uria aalge

Kjörlendi og varpstöðvar

Langvían verpur í stórum byggðum í fuglabjörgum eða ofan á stöpum og klettaeyjum. Er annars á sjó, bæði á grunn- og djúpsævi. Hún verpur á berar syllur, hreiðurgerð er engin. Vörpin eru oft í stórum bælum og breiðum. Ungar yfirgefa byggðina snemma eins og hjá álku.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Langvía er að mestu farfugl. Stór hluti íslenska stofnsins verpur í þremur stærstu fuglabjörgunum, Látra-, Hælavíkur- og Hornbjargi. Langvíu hefur fækkað við landið um 30% á undanförnum 30 árum. Vetrarstöðvar eru á hafinu milli Grænlands, Noregs og Bretlandseyja, auk þess á svonefndri Heljargjá við suðaustanvert Grænland, slæðingur heldur sig með ströndum landsins yfir veturinn. Heimkynni langvíu eru við norðanvert Atlantshaf og Kyrrahaf, í Atlantshafi verpur hún allt norður til Svalbarða og suður til Portúgals.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR