• Auðnutittlingur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Auðnutittlingur – ungfugl

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Auðnutittlingur er lítil, rákótt, grábrún finka með stutt stél. Rauður blettur á enni og svartur á kverk eru einkennandi. Hann hefur dökkar rákir á síðum, dauf vængbelti og grunnsýlt stél. Síðla vetrar og á vorin verður karlfuglinn bleikur eða rauðleitur á bringu og gumpi. Ungfuglar eru í fyrstu brúnflikróttir, án rauða blettsins á enni, en fá fullan búning í ágúst.

Auðnutittlingur flýgur í léttum bylgjum. Hann er kvikur og fimur þegar hann leitar sér ætis í trjám og öðrum gróðri. Er oftast í litlum hópum utan varptíma en þeir geta þó orðið allstórir.


Fæða og fæðuhættir:
Auðnutittlingur er frææta, sem byggir tilveru sína á birkifræi. Fæðir ungana á dýrafæðu: skordýrum og köngulóm. Taka einnig fræ njóla, baldursbrár og fleiri villijurta. Hafa nýlega komist upp á lag með að ná í fræ úr greni- og furukönglum. Algengir á fóðurbrettum þar sem fræ eru gefin og er sólblómafræ eitt besta fóðrið fyrir auðnutittlinga.


Fræðiheiti: Carduelis flammea

Kjörlendi og varpstöðvar

Kjörlendi er birkiskógar og kjarr, auk þess ræktað skóglendi og garðar. Auðnutittlingur gerir sér hreiður í trjám og runnum. Það er lítil, vönduð karfa úr sinu og öðrum gróðri, fóðruð með hárum og fiðri. Verpur venjulega oftar en einu sinni á sumri.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Auðnutittlingur er staðfugl. Stofninn sveiflast nokkuð eftir árferði og því hvernig birkifræ þroskast. Hefur breiðst út í kjölfar aukinnar skógræktar. Grænlenskir auðnutittlingar fara hér um vor og haust og hafa ef til vill vetursetu. Heimkynnin eru á breiðu belti um allt norðurhvelið.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR