• Þúfutittlingur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Þúfutittlingur er algengasti spörfugl landsins, stundum nefndur grátittlingur. Hann er einn af okkar bestu söngfuglum. Er minni en snjótittlingur, hálsstuttur, með breiða, stutta vængi og fremur kubbslegur. Einkennasnauður fugl, grágrænn, grábrúnn eða gulbrúnn að ofan. Hann er svartrákóttur að ofan, á bringu og síðum, ljósari á kverk og að neðan. Er með ljósa brúnarák og skeggrák og dauf vængbelti, hvítir stéljaðrar eru greinilegir á flugi. Á haustin eru ungfugl og fullorðinn fugl rákóttari að ofan og gulari á síðum.

Flug þúfutittlings er reikult og flöktandi. Hann flýgur stundum beint upp í loftið, lætur sig falla niður aftur á svifflugi og syngur um leið. Hann flögrar mikið um og tyllir sér á þúfur eða í tré þess á milli, er félagslyndur utan varptíma.


Fæða og fæðuhættir:
Dýraæta, etur margs kyns smádýr, bæði fullvaxin og á lirfu- og púpustigi. Etur stundum fræ og smávaxin skeldýr.


Fræðiheiti: Anthus pratensis

Kjörlendi og varpstöðvar

Varpkjörlendið er margvíslegt; mýrar, lyngheiðar, grasmóar, kjarr- og skóglendi, gróin hraun o.fl. á láglendi og sums staðar á hálendinu. Hann gerir sér vandaða hreiðurkörfu, vel falda utan í þúfu eða öðrum gróðri. Verpur oft tvisvar á sumri. Hann sækir í fjörur og mýrar utan varptíma.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Þúfutittlingur er farfugl. Hann hefur vetursetu frá Vestur-Frakklandi suður til Marokkó. Er annars algengur varpfugl í Evrópu og austur til Síberíu.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR