• Hettumáfur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Hettumáfur – ungfugl að vetri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Hettumáfur að vetri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Hettumáfur – fyrsta haustið

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Ársgamall hettumáfur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Hettumáfur er algengur votlendisfugl og minnsti máfurinn sem verpur hér á landi. Hann er oftast auðþekktur, ljósari, minni og léttari á flugi en rita og stormmáfur. Í sumarbúningi er fullorðinn fugl ljósgrár á baki og vængjum en annars hvítur að mestu. Dökkbrún hetta nær niður á háls, vængbroddar eru svartir. Er hettulaus í vetrarbúningi, frá ágúst og fram í mars, með svartar kámur á hlustarþökum. Nýfleygir ungar eru brúnflikróttir að ofan en lýsast á haustin. Fugl á fyrsta vetri er hvítur á höfði, hálsi og að neðan, vængir brún- og svartflikróttir að ofan, stéljaðar svartur. Fær fullan búning á öðru hausti. Kynin eru eins.

Hettumáfur er ekki eins mikill sjófugl og rita. Hann sést oft við fæðuleit í fjörum, á leirum og við skólpræsi. Stundum eltir hann sláttuvélar eða plóga og hremmir skordýr sem koma í ljós í slægjunni eða plógfarinu. Félagslyndur og fremur spakur.


Fæða og fæðuhættir:
Aðalfæðan er úr dýraríkinu: skordýr, sniglar, ormar og aðrir hryggleysingjar. Sækir einnig í smáfisk, ber og úrgang. Leitar ætis bæði fljúgandi, syndandi og gangandi, oft á nýslegnum túnum eða í plógförum.


Fræðiheiti: Larus ridibundus

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur í byggðum í margs konar kjörlendi á láglendi, bæði blautu og þurru, en er hændastur að votlendi; er við strendur, á söndum, í mýrlendi og við vötn og tjarnir girtar ljósastör, stundum í nábýli við kríu. Hreiðrið er dyngja úr þurrum gróðri, getur orðið stórt um sig í votlendi.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Hettumáfur er að mestu farfugl. Stærstu byggðirnar eru á Suðurlandi, við sunnanverðan Faxaflóa og um miðbik norðanlands. Hettumáfur nam hér land á 20. öld. Líkt og krían er hann harðfylginn og ver vörp sín gegn óboðnum gestum og sækjast endur og vaðfuglar eftir að verpa innan um hettumáfa. Vetursetufuglar halda til á Suðvestur- og Norðurlandi í höfnum og við þéttbýli, farfuglar fara til Vestur-Evrópu en einnig Norður-Ameríku. Er varpfugl um mestalla Evrópu og austur um norðanverða Asíu.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR