STÖNGULL

Hlutverk stönguls er einkum að bera uppi laufblöð og blóm. Blöðunum er þannig komið fyrir á stönglunum að þau nýti ljósgeisla sólar sem best til að framleiða sykur. Blómin raða sér á ýmsa vegu á stöngulinn svo að hver planta hefur sína blómskipan. Þannig miðar allt að því að plantan vaxi og dafni.

Til eru margar gerðir af stönglum. Flestir stönglar vaxa upp úr jarðvegi en einnig er algengt að þeir lifi neðanjarðar. Túnfífillinn hefur engan ofanjarðarstöngul heldur aðeins stuttan neðanjarðarstöngul. Upp af honum vaxa blöð og blómleggur.

Ofanjarðarstönglum er oft skipt í jurtkennda stöngla og trékennda stöngla. Hinir fyrr nefndu eru oftast grænir, linir og safamiklir. Þeir lifa yfirleitt skamma hríð og sölna undir haust. Trékenndir stönglar eru klæddir þykkum berki og þeir gildna með árunum. Úr trékenndum stönglum er unninn viður.

Stöngullinn lengist þannig að frumur sem eru fremst í honum fjölga sér ört. Við sérhverja skiptingu minnkar hver fruma um helming, en síðan taka þær til við að stækka og við það lengist stöngullinn. Eftir því sem stöngullinn lengist taka blöð að myndast á honum. Lengdarvexti stönguls lýkur þegar blóm myndast á enda hans.

Stöngullinn lengist þannig að frumur sem eru fremst í honum fjölga sér ört. Við sérhverja skiptingu minnkar hver fruma um helming, en síðan taka þær til við að stækka og við það lengist stöngullinn. Eftir því sem stöngullinn lengist taka blöð að myndast á honum. Lengdarvexti stönguls lýkur þegar blóm myndast á enda hans.